Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að kjarninn í endurreisn íslensks athafnalífs felist í því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu snemma á næsta ári.

Hann segir það jákvæð tíðindi að Ísland geti fengið hraðferð inn í sambandið. „Það eykur bjartsýni á það að í kjölfar aðildarumsóknar opnist leiðir til breytinga á gjaldmiðilsmálum," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandið, hefur ítrekað sagt - nú síðast á opnum fundi í Ósló í gær - að hægt yrði að ganga frá samningi við Íslendinga á skömmum tíma.

Björgvin kveðst fagna þeim ummælum sem og ummælum Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, á sama fundi. Í máli Perssons hafi komið fram að aðildarumsókn gæti hjálpað Íslendingum upp úr kreppunni.

Ná þarf breiðri pólitískri samstöðu

„Að mínu mati eru orsakir þeirrar dýptar sem efnahagslægðin á Íslandi er í sú að við  kusum að standa utan við Evrópusambandið," segir Björgvin. Í staðinn, segir hann, hafi Íslendingar kosið að vera aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu þar sem fjármálakerfið gat orðið gríðarstórt „en íslenska ríkið og bakhjarlinn hafi ekki haft færi á að fylgja því eftir."

Og áfram segir Björgvin: „Ég tel að það sé lykilatriði í nýrri líflínu Íslendinga að skjóta henni út í heim og sækja um aðild að Evrópusambandinu. En auðvitað bíðum við niðurstöðu stjórnmálaflokka sem funda um málið í janúar. Því það blasir við að við þurfum að ná breiðri pólitískri samstöðu um aðildarumsókn."

Spurður hvað verði um stjórnarsamstarfið hafni Sjálfstæðisflokkurinn ESB-aðild á  landsfundi í janúar svarar Björgvin: „Það veit enginn. Í dag er Samfylkingin ein með þessa stefnu og til að ná árangri skiptir mestu máli að aðrir flokkar komist að sömu niðurstöðu og við vonumst til að það gerist."