Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra útilokar ekki aðkomu erlendra aðila að íslensku bönkunum. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi um bankamál rétt í þessu.

„Ég tel rétt að skoða af fullri alvöru aðkomu erlendra aðila að bönkunum," sagði hann og bætti því við að á slíku fyrirkomulagi væru kostir og gallar. Ekkert hefði hins vegar verið ákveðið í þeim efnum þótt rætt hefði verið við kröfuhafa.

Hann sagði enn fremur einboðið að ríkið skoðaði möguleika þess að það ætti áfram hlut í einhverjum bankanum þegar losað yrði um hluti í þeim að nýju.

Þá sagði hann ljóst að einkavæða þyrfti bankana með allt öðrum hætti en gert hefði verið þegar þeir voru einkavæddir fyrir nokkrum árum.

Lykilstöður bankanna verði auglýstar

Björgvin sagði að síðustu að hann teldi eðlilegt að hin nýju bankaráð auglýstu lykilstöður þegar þau teldu rétt. Það gæti verið mikilvægur liður í því að endurvekja traust á bönkunum.