Aukin samkeppni er á innlánavörumarkaði á netinu í Bretlandi og segir á fjármálavefsíðunni Moneyexpert.com að verðstríð sé í uppsiglingu, sem muni verða til þess að innlánavextir á netinu muni fara yfir sex prósentu markið. Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segist í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag ekki sjá ástæðu til að taka þátt í slíku verðstríði og að Icesave muni halda sig við þá hugmyndafræði sem lagt var upp með í byrjun.

Sigurjón segist ekki hafa sérstakar áhyggjur af þessari þróun á markaðinum og bætir við því til stuðnings að talið sé að Icesave fái nú nærri 40% af öllu því sem myndast á innlánaviðskiptum í Bretlandi á internetinu fyrir utan ávöxtun. "Okkar hugmynd er mjög einföld, við bjuggum til mjög góða vöru í upphafi sem selst og við munum bara halda okkur við hana, við erum ekki að fara í verðstríð við einn né neinn. Okkar hugmyndafræði er að hafa þetta einfalt og þægilegt, vera ekkert að hringla mikið í þessu heldur fylgja eftir vel skilgreindum reglum sem við gáfum út í upphafi," segir Sigurjón.

Stýrivextir Seðlabanka Englands voru síðast hækkaðir í byrjun maí og eru nú 5,5%, en þeir hafa ekki verið hærri í sex ár. Framkvæmdarstjóri Moneyexpert.com, Sean Gardner, segir að svo virðist sem langt sé síðan 6% innlánavextir voru við lýði í Bretlandi, en þeir muni snúa aftur af miklum krafti á næstu vikum. "Það hafa verið að koma nýjir aðilar inn á innlánamarkaðinn sem hafa boðið upp á betri vexti en aðrir, síðan hafa stýrivextir hafa verið hækkaðir í þokkabót og hefur þetta orðið til þess að nú eru nokkrir innlánareikningar farnir að bjóða upp á 6% vexti," segir Gardner.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.