Hagnaður Icelandic fyrir skatta af reglulegri starfsemi er 3 milljarðar króna, en eftir skatta skilar fyrirtækið 1,1 milljarði til eigenda sinna. Þetta er veruleg breyting frá því á árinu 2008, þegar rekstur fyrirtækisins var afar erfiður og skilaði töluverðu tapi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Group en aðalfundur félagsins var haldinn í dag.

Fram kemur í tilkynningunni að viðsnúningurinn hefur létt mjög á fjármögnun félagsins og um leið losað um nauðsynlegt fjárflæði innan þess. Lögð hefur verið áhersla á að draga úr kostnaði við birgðafjármögnun og að greiða niður skuldir félagsins við helsta lánveitanda sinn, Landsbankann (NBI hf.) en Icelandic er nú að fullu í eigu Vestia, dótturfélags bankans.

Þá kemur fram að  á árinu greiddi Icelandic niður skuldir um 12 milljarða króna „sem endurspeglar vel þann fjárhagslega styrk sem í félaginu býr,“ eins og það er orðað í tilkynningunni.

„Horfur á þessu ári eru mjög jákvæðar, þó áfram verði unnið að umbótum í rekstri fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.

„Með veltu upp á tæpa 200 milljarða, öflugt sölunet og jákvæða fjárhagsstöðu er Icelandic Group vel í stakk búið til að takast á við harða samkeppni á alþjóðlegum matvælamarkaði. Icelandic er fyrst og fremst alþjóðlegt sjávarútvegsfyrirtæki og tekjur fyrirtækisins verða til á meginlandi Evrópu (40%), Bretlandseyjum (28%), í Norður-Ameríku (18%) og í Asíu (14%).“

Þá kemur einnig fram að iInnlend starfsemi Icelandic Group óx umtalsvert á síðasta ári og fer drjúgur hluti af íslenskum sjávarafurðum um sölunet Icelandic Group. Starfsstöðvum fyrirtækisins erlendis hefur verið fækkað og eru dótturfélögin nú 30 talsins í 14 löndum. Starfsmönnum hefur fækkað á flestum stöðum, en þó ekki á Íslandi. Þeir eru nú um 3.700.