Ólafur F. Magnússon borgarstjóri tók vel í þá hugmynd í morgun að hann viki úr borgarstjórn, fyrir varamanni sínum Margréti Sverrisdóttur, til þess að Tjarnarkvartettinn gæti tekið við völdum á ný í borginni. Óskar Bergsson, borgarfulltrúi framsóknarmanna, vissi að þessi hugmynd yrði borin upp við Ólaf, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fulltrúi Tjarnarkvartettsins var sendur út af örkinni í morgun til að ræða þessi mál við Ólaf F. Eftir því sem næst verður komist vissi sá síðarnefndi þá þegar að upp úr meirihlutasamstarfinu við sjálfstæðismenn hefði slitnað. Hann hefði því tekið hugmyndinni vel og jafnvel verið reiðubúinn til að víkja.

Óskar var þó ekki búin að samþykkja þessa leið, þegar hún var borin upp við Ólaf F. heldur vildi ræða hana betur við sitt bakland. Eftir borgarráðsfund í morgun gaf Óskar hins vegar ekki fulltrúum Tjarnarkvartettsins færi á sér heldur sneri sér að sjálfstæðismönnum.

Enn er beðið eftir því hvort viðræður sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um nýjan meirihluta í borginni hafi borið árangur. Fundahöld hafa staðið yfir í allan dag.

Ekki náðist í Ólaf F. Magnússon við vinnslu þessarar fréttar.