Stjórn Vistor hf. hefur samþykkt uppskiptingu félagsins í tvö aðskilin félög. Nýtt dreifingarfyrirtæki, Distica hf., mun sinna vörustjórnun og dreifingu fyrir Vistor og aðra aðila innan lyfja- og heilbrigðisgeirans. Vistor hf mun einbeita sér að markaðsstarfi fyrir umbjóðendur fyrirtækisins segir í tilkynningu félagsins.

Distica mun taka við dreifingarstarfsemi Actavis á Íslandi frá og með næstu áramótum en til þessa hefur Paralogis séð um dreifinguna. Rekstur félagana , sem bæði eru í eigu eignarhaldsfélagsins Veritas Capital hf., verður að öllu leyti aðskilinn og munu þau lúta hvort sinni stjórninni. Gylfi Rútsson hefur verið ráðinn forstjóri Distica.

Vistor hefur til þessa sinnt heildarþjónustu fyrir alþjóðleg fyrirtæki innan lyfja og heilbirgisgeirans, allt frá markaðstarfi til dreifingar til smásala. Vistor mun í framtíðinni einbeita sér að markaðsmálum, skráningu og samskiptum við heilbrigðisgeirann fyrir umbjóðendur sína sem eru margir virtustu framleiðendur heims á sviði lyfja, lækningatækja og rannsóknar- og hjúkrunarvara. Hjá félaginu munu, eftir breytingar, starfa um 100 manns og hefur stór hluti þeirra víðtæka reynslu og sérmenntun á heilbrigðissviði. Forstjóri Vistor er Hreggviður Jónsson.

Distica mun sinna innflutningi, vörustjórnun og dreifingu fyrir Vistor og önnur fyrirtæki innan lyfja- og heilbrigðisgeirans. Distica tekur við dreifingu lyfja Actavis á Íslandi frá og með 1. janúar 2007. Með tilkomu samningsins við Actavis munu umsvif dreifingarstarfseminnar aukast um 30% og er áætluð velta Distica á næsta ári um 6,5 milljarðar. Starfsemi Distica er vottuð samkvæmt ISO 9001 gæðastaðalinum og er fyrirtækið það eina á sínu starfsviði á Íslandi sem hlotið hefur slíka vottun segir í tilkynningu félagsins.

Starfsmenn Distica verða á fimmta tug. Gylfi Rútsson, sem ráðinn hefur verið forstjóri Distica, hefur frá árinu 2003 starfað sem framkvæmdastjóri fjármála -og rekstrarsviðs Vistor hf. Gylfi var fjármálastjóri Tals á árunum 1999 ? 2003, fjármálastjóri Tæknivals 1991-1999 og þar áður starfaði hann hjá fjármögnunarfyrirtækinu Glitni hf.

Markmið Distica er að nýta þá styrkleika sem felast í gæðavottaðri starfsemi og mikilli ánægju viðskiptavina, til þess að efla og útvíkka starfsemina. Þannig verður fyrirtækinu kleift að bjóða fleiri aðilum innan lyfja- og heilbirgisgeirans upp á fyrsta flokks vörustjórnun og dreifingarþjónustu segir í tilkynningu þess.