Miklar breytingar verða gerðar í dag á rekstri og stjórn Morgunblaðsins. Í tilkynningu frá Óskari Magnússyni útgefanda kemur fram að þær komi í kjölfar ítarlegrar stefnumótunarvinnu sem unnið hefur verið að innan Árvakurs undanfarna mánuði.

Samtals 30 starfsmönnum er nú sagt upp en áður höfðu nokkrir misst starf sitt. Að auki renna  fáeinir tímabundnir ráðningarsamningar út fljótlega og verða þeir ekki endurnýjaðir. Samtals fækkar því um tæplega 40 starfsmenn hjá Árvakri. Þessi fækkun nær til allra deilda blaðsins en flestir hverfa af ritstjórninni eða 19 af 104 sem þar hafa starfað að undanförnu. Árvakur og Morgunblaðið þakka þeim starfsmönnum sem nú hverfa af vettvangi fyrir samferðina og óskar  þeim velfarnaðar.

Haraldur og Davíð ráðnir

Tveir ritstjórar hafa verið ráðnir til blaðsins. Þeir eru Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen. Davíð Oddsson hefur um áratugaskeið verið einn af kunnustu stjórnmálaleiðtogum Íslendinga. Hann hefur skýra framtíðarsýn og rödd hans hefur ætíð náð eyrum þjóðarinnar. Haraldur Johannessen, sem er hagfræðingur frá Háskóla Íslands, kemur til blaðsins úr ritstjórastól Viðskiptablaðsins. Í tilkynningunni segir að Árvakur vænti mikils af framlagi þessara öflugu einstaklinga sem raunar hafa báðir starfað áður hjá Morgunblaðinu, þó mislengi sé og á ólíkum tímum. Davíð var þingfréttaritari á Morgunblaðinu 1973-1974. Haraldur var blaðamaður á viðskiptablaði Morgunblaðsins á árunum 2000 til 2004.

,,Hinar róttæku ráðstafanir sem gripið hefur verið til í skipulagi og rekstri Árvakurs eru ekkert einsdæmi. Erfiðleikar eru um þessar mundir í blaðaútgáfu um allan heim. Sum blöð hafa rétt úr kútnum og náð jafnvægi í rekstri með róttækri endurskipulagningu, samþættingu og breyttum vinnubrögðum, önnur hafa liðið undir lok. Þeim aðgerðum sem nú hefur verið gripið til er ætlað að koma rekstri Árvakurs í jafnvægi en sem kunnugt er hafa verið erfiðleikar í rekstri félagsins undanfarin ár. Framundan er umtalsverð barátta þar sem Árvakur mun hvergi gefa eftir. Á næstunni verður meðal annars gerð sú breyting að sunnudagsblaði Morgunblaðsins verður dreift á laugardagsmorgni með laugardagsblaðinu. Sunnudagsblaðið verður áfram sjálfstætt og efnismikið blað með ferskum og fjölbreyttum efnistökum. Þá hefur verið greint frá samstarfi við Skjá 1 um fréttaútsendingar en með því fæst betri nýting á því efni sem unnið er á ritstjórninni án þess að stofnað sé til aukins kostnaðar," segir í tilkynningunni.