Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, viðurkenndi um helgina að lögfræðingur hans hefði gert samningsdrög þess efnis að hann fengi 139 milljónir danskra króna fyrir að leggja niður blaðið. Hann vísaði því hins vegar á bug að samningurinn hefði náð fram að ganga. Einungis hefði verið um drög að ræða.

Í samningsdrögunum sem Jótlandspósturinn greindi frá fyrir helgi er gert ráð fyrir því að fyrirtæki tengt Lund fái vel launað ráðgjafarverkefni hjá evrópska blaðaútgáfufélaginu Mecom.

Upphæðin átti að nema 139 miljónum danskra króna og greiðast í þremur hlutum. Forsenda samningsins var þó að útgáfu Nyhedsavisen yrði hætt. Mecom á meðal annars danska útgáfufyrirtækið Berlingske.

Lund sagði um helgina að samningsdrögin væru frá honum komin. Tilgangurinn með þeim hefði verið að reyna að fá peninga til þess meðal annars að geta greitt lánadrottnum blaðsins. Þannig, sagði hann, hefði mátt koma í veg fyrir að blaðið yrði gjaldþrota, þegar útgáfunni var hætt. Ekkert hafi þó orðið af því.

Montgomery vísar málinu á bug

David Montgomery, aðaleigandi Mecom, hefur neitað því í dönskum fjölmiðlum að hafa átt í viðræðum um að Nyhedsavisen yrði lokað gegn greiðslu.

Þegar Lund var um helgina spurður af dönskum fjölmiðlamönnum hvort Montgomery hefði séð fyrrgreind samningsdrög svaraði hann: "Ég veit ekki hvort Montgomery hefur séð þennan samning. Við höfum talað um þetta. Við Montgomery höfum hist á mörgum fundum."

Íslendingarnir grunuðu Lund um græsku

Jótlandspósturinn hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum sínum í dag að Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, hafi brugðist ókvæða við þegar hún heyrði af þeirri ákvörðun að loka ætti blaðinu. Sú ákvörðun hefði verið tekin án samráðs við íslensku eigendurna. Stoðir Invest áttu 15% í blaðinu.

Heimildarmenn segja að Lund og Þórdís hafi talast við í síma að kvöldi sunnudagsins 31. ágúst. Viðstaddir á skrifstofu Nyhedsavisen á Gammel Strand í Kaupmannahöfn hafi getað fylgst með viðbrögðum Þórdísar þar sem Lund hafi haft hátalarann á. "Þú hefur gert samning án okkar vitundar," átti hún að hafa sagt.

Jótlandspósturinn telur að þarna hafi Þórdís verið að vísa til títtnefndra samningsdraga.

Heimildarmenn Jótlandspóstsins segja enn fremur að Þórdís hafi boðist til þess að leggja strax fram sjö milljónir danskra króna svo blaðið gæti komið út á mánudagsmorgni.