Vænt vaxtaþróun sem lesa má úr fólgnum vöxtum á peningamarkaði gefur til kynna trú manna á að framundan sé vaxtalækkun af hálfu Seðlabankans, segir greiningardeild Glitnis.

?Fólgnir vextir gefa þannig til kynna að um miðbik næsta árs verði stuttir vextir komnir nálægt 12% hér á landi. Þetta rímar í grófum dráttum við spá okkar en við höfum gert ráð fyrir að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt snemma á næsta ári, til dæmis í mars eða apríl, og lækki vexti sína talsvert eða niður í allt að 10% fyrir áramót," segir greiningardeildin.

Hún segir að vextir í helstu viðskiptalöndum Íslands stefni hins vegar almennt upp á við ef marka má fólgna vexti á markaði.

?Ekki er þó almennt um að ræða bratt vaxtahækkunarferli sem menn sjá fram á og fólgnir vextir gefa til kynna að í helstu viðskiptalöndum okkar muni vextir hækka um 0,3 prósentustig að jafnaði þegar horft er til miðbiks næsta árs. Hafa ber þó hugfast að skjótt skipast veður í lofti í þessum efnum," segir greiningardeildin.
Minnkandi vaxtamunur framundan

Minnkandi vaxtamunur framundan

Hún segir að óvissa ríkir um næstu skref Seðlabanka Íslands en margt bendir til þess að vaxtamunurinn við útlönd minnki talsvert á næsta ári.

?Gengi krónunnar hefur notið mikils meðbyrs að undanförnu og framhald gæti orðið á þeirri þróun næsta kastið í ljósi mikils vaxtamunar og minnkandi áhættufælni erlendra fjárfesta. Telja verður þó líklegt að minnkandi vaxtamunur dragi úr aðdráttarafli krónunnar á næsta ári og hún gefi eitthvað eftir.

Segja má að líkur aukist á að sagan frá fyrri hluta árs endurtaki sig með snörpu gengisfalli á næsta ári ef gengi krónunnar hækkar umtalsvert á næstunni. Sú hætta er einnig fyrir hendi að óvænt ótíðindi í öðru hávaxtalandi valdi gengislækkun krónunnar, jafnvel við núverandi vaxtamun," segir greiningardeildin.


Mynd fengin frá Glitni