Stjórnendur evrópska seðlabankans ákvaðu að halda stýrivöxtum óbreyttum í 3,75% eftir fund sinn í gær. Ekki hafði verið búist við breytingu á stýrivöxtum fyrir fundinn en skiptar skoðanir eru um hvort að vextir á evrusvæðinu komi til með að hækka enn frekar eða hvort að þeir séu á niðurleið. Áhersla Jean-Claude Trichet, forseta evrópska seðlabankans, á kraftmikinn vöxt og á verðbólguþrýsting á blaðamannafundi í gær gefa hinsvegar til kynna að vextir munu halda áfram að hækka og jafnvel fara yfir fjögur prósent á næstu misserum.

Flestir hagfræðingar spá því að stýrivextir á evrusvæðinu verði hækkaðir upp í fjögur prósent í júní, ekki síst vegna þess að mælingar á peningamagni í umferð í hagkerfinu benda til undirliggjandi verðbólguþrýstings auk þess sem að nýjar hagtölur, sérstaklega þær sem koma frá Þýskalandi, en þar standa til að mynda útflutningsgeirarnir sterkir þrátt fyrir sterka evru, benda til þess að vöxtur er enn kraftmikill. Auk þess bendir margt til þess að atvinnuleysi sé á niðurleið og neytendur séu bjartsýnni á horfurnar - það kann að leiða til þess að eftirspurn aukist enn frekar á evrusvæðinu með tilheyrandi verðbólguþrýstingi. Trichet sagði í gær að seðlabankinn muni fylgjast sérstaklega með launaþróun á evrusvæðinu en sumir innan bankans hafa látið í ljós áhyggjur að undanförnu yfir því að hóflegar hækkanir í flestum hagkerfum evrusvæðisins dugi ekki til að vega upp á móti hugsanlegu launaskriði í Þýskalandi sökum hagvaxtar og minnkandi atvinnuleysis.

Hinsvegar eru ekki allir á sama máli. Sérfræðingar þýska fjármálafyrirtækisins Allianz Dresdner telja að vaxtahækkunarferlinu taki senn að ljúka. Í greiningu sem var birt fyrir vaxtaákvörðunarfundinn á fimmtudag er því spáð að verðbólga á evrusvæðinu á þessu ári og því næsta verði vel innan við viðmið peningamálastefnunnar, eða rétt undir tveim prósentum í fyrsta sinn síðan 1999. Sérfræðingar bankans telja að aukinn sveigjanleiki á vinnumörkuðum evrusvæðisins, auk áhrifa alþjóðavæðingar, geri að verkum að launaskrið sé ekki í vændum og verðbólguþrýstingur þar af leiðandi ofmetinn.