Ljóst er að íslenskir neytendur eru enn langt í frá því að teljast vera bjartsýnir á horfur í efnahags- og atvinnumálum ef marka má Væntingavísitölu Gallup sem birt var nú í morgun. Hún sýnir að væntingar neytenda stóðu nánast í stað á milli febrúar og mars. Þannig var vísitalan 43,2 stig núna í mars og lækkar um 3 stig á milli mánaða.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en vísitalan er nokkuð hærri en hún hefur að jafnaði verið frá hruni bankanna og er því eitthvað bjartara yfir landanum nú en undanfarin misseri.

Fram kemur í Morgunkorni að mat á núverandi ástandi í efnahags- og atvinnumálum helst nánast óbreytt frá síðustu mælingu og mælist áfram afar lágt, eða 7,9 stig. Væntingar til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði versna á hinn bóginn um 5 stig, eða úr 71,8 stigum í 66,8 stig.

Greining Íslandsbanka segir því ljóst að minni væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði skýra lækkun vísitölunnar nú sem er öfugt við það sem verið hefur í mælingum síðustu mánuði en þá hafa væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði leitt til þess að vísitalan hefur hækkað enda hefur mat á núverandi ástandi haldist nokkuð stöðugt síðustu misseri líkt og nú.

Sjá nánar í Morgunkorni.