Væntingavísitala IMG Gallup hækkar annan mánuðinn í röð. Hækkunin nemur 6,9 stigum og mælist vísitalan nú 120,7 stig sem er hæsta gildi sem mælst hefur í ágúst. Aukin tiltrú á núverandi ástand og aukin trú á efnhagslífinu nú og eftir 6 mánuði eiga stærsta þáttinn í hækkun vísitölunnar. Mælingin var gerð í fyrri hluta ágústmánaðar þannig að nýlegar breytingar á húsnæðislánamarkaði hafa ekki áhrif á gildi vísitölunnar.

Væntingavísitala Gallup mælir tiltrú og væntingar fólks til efnahagslífsins,
atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Væntingavísitala Gallup er mæld á sama hátt og Consumer Confidence Index í Bandaríkjunum og þar er hún talin hafa forspárgildi um þróun á einkaneyslu.