Væntingar þýskra fjárfesta eins og þær eru mældar af hagfræðistofnuninni ZEW lækkaði í sitt lægsta gildi í heilt ár í síðustu mælingu. Gildi vísitölunnar mældist 38,4 í september, sem er lægsta gildi hennar síðan í júní 2003, en var 45,3 í ágúst. Í skýrslu ZEW segir að skýringanna sé að leita í minni bjartsýni um efnahagshorfur í heiminum eftir óljósar hagtölur frá Bandaríkjunum. Samkvæmt ZEW gæti það haft neikvæðar afleiðingar í hagkerfi Þýskalands þar sem hagkerfið þar er að miklu leyti drifið áfram af útflutningi um þessar mundir. Á þetta er bent í Hálffimm fréttum KB banka í dag.

Í Financial Times er haft eftir Holger Schmieding, hagfræðingi hjá Bank of America, að tölur ZEW séu alvarleg aðvörun til Evrópubankans og bendi til að hagkerfi Evrópu sé veikara en bankinn geri ráð fyrir. Jean-Claude Trichet, bankastjóri Evrópubankans, sagði fyrr í vikunni að hagkerfið væri í hægfara bata. Þýska hagkerfið er það stærsta í Evrópu og þar með minnka þessar tölur en frekar líkurnar á að vaxtahækkun sé í nánd í Evrópu, en eins og Greiningardeild hefur áður bent á hefur vaxtaþróun í Evrópu mikil áhrif á þróun mála hér á landi eins og rakið er í Hálffimm fréttum KB banka.