Verðskrá Vodafone vegna símtala erlendis, svokölluð reikiverðskrá, verður frá 1. apríl birt í evrum.  Kostnaður viðskiptavina Vodafone vegna símnotkunar erlendis mun frá þeim tíma taka mið af gengi íslensku krónunnar gagnvart evru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.

„Vegna gengisþróunnar íslensku krónunnar undanfarið er óhjákvæmilegt, að kostnaður viðskiptavina vegna símtala erlendis hækki.  Fyrirtækið sjálft greiðir fyrir keypta þjónustu hjá erlendum símafélögum í erlendri mynt og við aðstæður eins og nú er verður ekki hjá því komist að verðið hækki í krónum talið. Sú breyting að birta reikiverð í evrum er varanleg og því mun kostnaður viðskiptavina vegna símtala erlendis lækka þegar krónan styrkist á ný,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að mínútugjald vegna þjónustuleiðarinnar Vodafone Passport verður áfram í íslenskum krónun en Passport viðskiptavinir greiða á ferðum sínum erlendis sama mínútuverð og gildir á Íslandi, gegn upphafsgjaldi fyrir hvert símtal.  Upphafsgjaldið mun frá 1. apríl nema 0,99 evrum.

„Viðskiptavinir Vodafone hafa frá áramótum notið góðs af mikilli verðlækkun á símtölum í aðildarlöndum Evrópusambandsins. Þá breytti Vodafone verðskrá sinni í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins um reiki, þótt tilskipunin hafi ekki enn verið lögfest hér á landi.  Engin breyting verður þar á en samkvæmt henni er mínútverð fyrir reikisímtöl í aðildarlöndunum 0,61 evra (0,49 € + VSK),“ segir í tilkynningu Vodafone.