Vodafone sendi í gær frá sér afkomuviðvörun, um að aukning í tekjum á næsta ári fari minnkandi og framlegð sömuleiðis, vegna mettunar markaðarins, aukinnar samkeppni og vaxandi íhlutunar hins opinbera. Bréf í félaginu lækkuðu í verði um meira en 6% strax í kjölfar tilkynningarinnar og viðbrögð fjárfesta voru almennt neikvæð, að sögn Financial Times.

Um leið tilkynnti Vodafone að hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) hefði aukist um 400 milljónir punda á fyrri hluta reikningsársins, fram í lok september. Nam hún 6,7 milljörðum punda og var það í takt við væntingar. Tekjur jukust um 9% og voru 18,3 milljarðar punda. Hagnaður fyrir skatta lækkuðu um 400 milljónir punda og námu 4,1 milljarði punda. Munaði þar mestu um 515 milljóna punda afskrift á sænskri deild starfseminnar, sem seld var fyrr í mánuðinum. Framlegð á fyrri hluta ársins minnkaði um 1,5 prósentustig og nam 37,9%, að mestum hluta vegna vandræða í rekstri Vodafone í Japan, en Vodafone stendur engu að síður við spá sína um að hún verði jafn mikil og í fyrra eða lækki um eitt prósent.