Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í dag upp dóma í fimm skaðabótamálum sem höfðuð voru á hendur Fjarskipti hf., eiganda Vodafone, vegna tjóns sem viðskiptavinir töldu sig hafa orðið fyrir í kjölfar innbroti tölvuþrjóta á "Mínar síður" á heimasíðu félagsins í nóvember 2013.

Dómurinn sýknaði félagið í tveimur málanna en komst að þeirri niðurstöðu að það væri skaðabótaskylt í hinum þremur. Félaginu var samtals gert að greiða þremur einstaklingum samtals 2,7 milljónir króna auk vaxta og málskostnaðar.

Samtals kröfðust stefnendur 103,8 milljónir í bætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir vegna þeirra upplýsinga sem stolið var af síðunum.

Í tilkynningu Fjarskipta til Kauphallar segir að félagið muni nú gefa sér tíma til að kynna sér forsendur dómanna og meta framhaldið. Enn liggi fyrir héraðsdómi til úrlausnar bótakrafa eins einstaklings til viðbótar en krafa hennar hljóðar upp á 8.424.500 kr. Aðalmeðferð í málinu fer fram 13. maí næst komandi.