Hagnaður Vodafone á öðrum ársfjórðungi nam 210 milljónum króna. Þetta er þremur milljónum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Þetta er engu að síður 40 milljónum krónum undir afkomuspá IFS Greiningar sem VB.is fjallaði um í vikunni. Hagnaðurinn á fyrri hluta ársins nam 345 milljónum króna borið saman við 231 milljón á sama tíma í fyrra. Hagnaður nam 60 aurum á hlut á öðrum ársfjórðungi borið saman við 62 aura á hlut á sama tíma í fyrra. Á fyrstu sex mánuðum ársins nam hagnaðurinn hins vegar 1 krónu á hlut nú miðað við 70 aura í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Vodafone að tekjur hafi numið 3.294 milljónum króna á fjórðungnum miðað við 3.257 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Það jafngildir 1% aukningu á milli ára. Tekjurnar á fyrstu sex mánuðum ársins námu 6.467 milljónum króna miðað við 6.323 milljónir í fyrra.

Rekstrarhagnaður félagsins nam 671 milljón króna miðað við 731 milljónir í fyrra. Á fyrri hluta ársins nam hann 1.306 milljónum króna en var 1.271 milljón á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að rekstur Vodafone hafi verið ágætur, sérstaklega þegar tekið hefur verið tillit til mikillar innri vinnu tengdum öryggismálum og ISO 27001 vottun félagsins ásamt öðru. Samhliða styrkingu innviða voru mikilvæg skref stigin á ýmsum sviðum á tímabilinu. Nýjar vörur voru innleiddar og áfram var haldið með fjárfestingar í kerfum sem eru mikilvæg fyrir tekjuöflun Vodafone til framtíðar, s.s. við uppbyggingu í 4G-þjónustu fyrirtækisins. Á sama tíma var styrkt verulega sjónvarps- og útvarpsdreifikerfi Vodafone sem mun á árinu ná til 99,8% landsmanna.