„Kostnaður við uppbyggingu 4G farsímakerfis á Íslandi liggur ekki fyrir,“ segir í tilkynningu frá Vodafone. Tilefni tilkynningarinnar er frétt í Morgunblaðinu í dag en þar kom fram að uppbygging á 4G fjaskiptakerfi muni kosta Vodafone 3 milljarða á næstu árum.

Talsmenn Vodafone segja þetta hins vegar ekki rétt. „Ýmsar leiðir eru mögulegar við slíka uppbyggingu og eru þær allar til skoðunar. Kostnaður við uppbyggingu ræðst af því hvaða leið verður valin, hvaða tæknilegu útfærslur verða fyrir valinu og hvað uppbygging tekur langan tíma,“ segir í tilkynningunni. „Getgátur um heildarkostnað Vodafone vegna 4G eru því ótímabærar.“

Vodafone stefnir að skráningu á markað. Í tilkynningu segir að fjárfestum hafi á kynningarfundum undanfarnar vikum verið grein frá því að kostnaður vegna mögulegrar 4G uppbyggingar muni rúmast innan hefðbundinna fjárfestingaáætlana félagsins.