Og fjarskipti ehf. (Vodafone), dótturfélag Teymis hf., hefur samið við Nova ehf. um samnýtingu farsímakerfa. Samningurinn felur í sér að Vodafone fær aðgang að nýju dreifikerfi Nova fyrir þriðju kynslóð farsíma (3G) og Nova fær aðgang að GSM farsímakerfi Vodafone, að því er fram kemur í tilkynningu.

Stjórnir Og fjarskipta ehf. og Nova ehf. telja að samningurinn feli í sér verulegt hagræði fyrir bæði félögin. Samkomulagið er í samræmi við útboðslýsingu Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir 3G tíðniheimildir sem veitir
rétthöfum svigrúm til samnýtingar á dreifikerfum.

Og fjarskipti (Vodafone) er fjarskiptafyrirtæki í eigu Teymis hf. Starfsmenn Vodafone eru um 350 talsins og þjónusta viðskiptavini á heimilum og hjá fyrirtækjum um land allt með farsíma, síma, nettengingar og sjónvarp. GSM þjónusta Vodafone nær til 98% landsmanna og með samstarfi við Vodafone Group, eitt öflugasta fjarskiptafyrirtæki í heimi, er viðskiptavinum Vodafone tryggð örugg farsímaþjónusta um allan heim.