Vodafone hefur tekið yfir samkeppnisrekstur Fjarska ehf. sem í kjölfarið mun einbeita sér að sérhæfðri öryggisfjarskiptaþjónustu vegna raforkukerfisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en þar segir jafnframt að Vodafone hafi tekið þátt í útboði vegna málsins. Fjarski er hluti af Landsvirkjunarsamstæðunni og hefur boðið gagnaflutningaþjónustu og hýsingaraðstöðu sem Vodafone tekur nú yfir.

Vodafone tekur yfir allar skuldbindingar Fjarska gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins.

„Með kaupunum mun Vodafone eignast víðáttumikið fjarskiptakerfi sem nær til flestra landshluta.  Verður nýja kerfið viðbót við núverandi grunnnet Vodafone sem byggir á 1.800 kílómetra löngum ljósleiðara sem liggur hringinn í kringum landið, þ.m.t. um Vestfirði.  Vodafone á jafnframt fjölmarga fjarskiptastaði á hálendinu sem eru undirstaða langdrægs GSM kerfis fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu Vodafone.