Vodafone hefur sent frá sér tilkynningu vegna netsvika:

„Vegna fjölda fyrirspurna sem Vodafone hefur borist í dag um tölvupóst í dreifingu, þar sem móttakendum er tilkynnt að þeir hafi unnið stórfé í meintu nethappdrætti Vodafone í Hollandi, skal tekið fram að um gabb er að ræða.  Fólk er þess vegna hvatt til að svara ekki umræddum tölvupósti, enda er hann augljóslega tilraun óprúttinna aðila til að misnota trúverðuleika Vodafone og það traust sem fyrirtækið hefur áunnið sér um heim allan, m.a. hér á landi.

Tilraunir til að nota nöfn vinsælla og virtra alþjóðlegra fyrirtækja eins og Vodafone til að ljá netsvikum aukinn trúverðugleika virðast vera að aukast.  Vodafone hvetur fólk til að vera á verði gagnvart slíku og veita ekki upplýsingar af nokkru tagi til þeirra sem stunda þessa iðju," segir í tilkynningunni.