Vodafone hefur stefnt Tali (IP-Fjarskiptum) fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til greiðslu reikningsskuldar vegna fjarskiptaþjónustu sem Vodafone veitti Tali á grundvelli samninga á árunum 2011 og 2012. Krafan hljóðar upp á rúmar 117 milljónir króna auk vaxta.

Fram kemur í tilkynningu frá Vodafone að það sé afstaða fyrirtækisinsað fyrirliggjandi samningar milli félaganna feli í sér ótvíræða greiðsluskyldu af hálfu Tals og að málatilbúnaður Vodafone byggi á sterkum lagalegum grunni. Rétt er að taka fram að óvissa ríkir um niðurstöðu dómsmálsins. Verði Tal dæmt til greiðslu á framangreindri kröfu Vodafone mun það hafa jákvæð áhrif á fjárhag Vodafone.

Minnst er á málið í skráningarlýsingu Vodafone. Þar segir að forsaga málsins sé sú að Tal keypti fjarskiptaþjónustu af Vodafone í heildsölu. Árið 2011 kom upp ágreiningur milli félaganna vegna reikninga sem Vodafone gaf út á hendur Tali vegna umframgagnamagns og fleiri þátta. Tal greiddi hluta af reikningunum á fyrri hluta árs 2012 og stendur ágreiningurinn um fimm reikninga frá árinu 2011.