Í bréfi sem dagsett er 10. ágúst sl. fellst iðnaðar- og viðskiptaráðherra á að endurskoða ákvörðun sína frá 19. apríl sl. þar sem hann hafnaði beiðni Stillu útgerðar sem í dag er hluti af Brim hf., minnihluta eiganda í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, um að ráðherra tilnefndi rannsóknarmenn til að rannsaka tiltekna þætti í starfsemi félagsins. Ráðuneytið mun koma til með að fjalla um rannsóknarbeiðnina eins og hún var borin upp á aðalfundi félagsins þann 2. júní 2015. Tillagan var samþykkt með atkvæði 30,9% hlutfjár.

Beiðnin á rætur sínar að rekja til flókins deilumáls milli hluthafa Vinnslustöðvarinnar en í bréfi frá lögmanni Stillu útgerðar til ráðherra kom fram tillaga þess efnis að rannsökuð yrði með- ferð eigin fjár Vinnslustöðvarinnar í tengslum við samruna félagsins við Ufsaberg-útgerð ehf.

Vön endalausum og ástæðulausum ásökunum

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdarstóri Vinnslustöðvarinnar, segir að samruni félagsins við Ufsaberg hafi verið tekinn í samræmi við þau lög og reglur sem um samruna gilda. Gerðar hafi verið sérfræðiskýrslur og loks hafi stjórnir félaganna og hluthafafundur samþykkt hann með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Hann bendir jafnframt á að Hæstiréttur hafi staðfest með dómi sínum að rétt hafi verið staðið að samrunanum. „Sennilega er þetta best rannsakaði samruni landsins, þannig að ég get ómögulega séð hverju ráðuneytið geti bætt við hann,“ segir Sigurgeir og ítrekar að engir rannsóknarmenn hafi enn verið skipaðir í málinu.

Sigurgeir furðar sig á því að ráðuneytið hafi ákveðið að endurskoða ákvörðun sína enda hafi Hæstiréttur tekið af allan vafa um álitaefni í niðurstöðu sinni í máli nr. 826/2015 þar kemur fram að minnihlutaeigendur hafi hvorki með matsgerð dómkvadds manns né öðrum viðhlítandi gögnum hnekkt því áliti sérfræðings að endurgjald fyrir hlutina í Ufsabergi-útgerð hafi verið sanngjarnt og efnislega rökstutt. Hafi því ekki verið orðið við dómkröfu aðila á grundvelli málsástæðna hans, sem lúta að því að ákvarð- anir hluthafafundarins í október 2014 hafi brotið gegn jafnræði hluthafa.

Þá telur Sigurgeir að það geti ekki verið í samræmi við grundvallarreglu um þrískiptingu ríkisvaldsins að stjórnvald eða stjórnvaldsskipaðir menn fari að endurskoða niðurstöður Hæstaréttar Íslands. Sigurgeir bætir því jafnframt við að félagið sé orðið vant því sem hann kallar endalausar og ástæðulausar ásakanir úr ranni Guðmundar Kristjánssonar, aðaleiganda Brim hf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.