„Augljóst er af þeim gögnum sem Seðlabanki Íslands hefur lagt fyrir dómstóla að bankinn hefur byggt málið á rangfærslum og vanþekkingu á rekstri Samherja,“ segir í bréfi Samherja til starfsmanna fyrirtækisins í tengslum við rannsókn Seðlabankans á meintum gjaldeyrisbrotum fyrirtækisins. Bankinn hefur sent málið til embættis sérstaks saksóknara.

Í bréfinu til starfsmanna segir m.a. að rannsókn á karfaviðskiptum Samherja hafi verið til rannsóknar í 13 mánuði. Léttir sé að það hafi verið sent til embættis sérstaks saksóknara. Þá segir að vonast sé til að þar sýni menn meiri fagmennsku en yfirmenn og rannsakendur Seðlabankans hafi gert og að málinu ljúki sem fyrst. Þorsteinn Már Baldvinsson , forstjóra Samherja, sagði í samtali við RÚV í morgun, að rannsókn Seðlabankans hafi haft margvísleg áhrif á reksturinn. M.a. sé alltaf spurt um málið þegar Samherjamenn eigi í bankaviðskiptum.

Í bréfinu er farið yfir sögu málsins. Þar segir:

„Forstjóri Samherja sagði opinberlega í byrjun árs að hann teldi að Seðlabankinn myndi vísa málinu til Sérstaks saksóknara og að það yrði gert um miðjan apríl, þar sem seðlabankastjóri hefði ekki aðra útgönguleið í málinu vegna þess á hvaða forsendum stofnað var til þess. Engum að óvörum hjá Samherja hefur þetta nú komið á daginn! Fyrst í liðinni viku fékk Samherji afhent gögn sem Seðlabanki Íslands lagði fram í Hæstarétti Íslands í maí á síðasta ári en hélt leyndum fyrir Samherja, sem er fáheyrt milli málsaðila fyrir Hæstarétti. Í þessum gögnum grípur Seðlabanki Íslands til nýrra reiknikúnsta og dregur af þeim ályktanir sem eru jafn rangar og þær sem lágu að baki beiðni bankans um húsleitarheimild. Í línuriti sem Seðlabanki Íslands lagði fram í Hæstarétti máli sínu til stuðnings, sýnir bankinn samanburð á karfaverði Samherja og stærsta útflytjanda á karfa frá Íslandi. Línuritið sýnir að verð þessara tveggja útflytjenda er mjög svipað, fyrir utan löng tímabil þar sem verðið er hærra hjá Samherja. Það þarf töluvert einbeittan vilja til að geta lesið það út úr línuritinu [...] að Samherji hafi selt karfa á undirverði og þar með brotið gegn gjaldeyrislögum.“

Þá segir í bréfinu:

„Í kjölfar húsleitar Seðlabankans óskaði Samherji eftir fundi með gjaldeyriseftirlitinu. Haldinn var einn fundur, meðal annars til að fá leiðbeiningar um það hvernig innflutningur á fiski frá tengdum aðilum skyldi verðlagður. Framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlitsins gaf þær leiðbeiningar að menn ættu að kaupa á sem lægstu verði og selja á sem hæstu. Þegar framkvæmdastjóranum var bent á að það myndi stangast á við lög í Þýskalandi, þaðan sem Samherji hafði verið að kaupa fisk, sagði framkvæmdastjórinn að hann varðaði ekki um það. Þetta lýsir kannski umhverfinu sem við búum við í dag.“