Á morgun (miðvikudag) hefst formlega árlegt söfnunarátak Krabbameinsfélags Íslands með sölu á bleiku slaufunni. Félagið hefur sett sér það markmið að selja 40.000 eintök af slaufunni fyrir 15. október.

„Allur ágóði af sölu á bleiku slaufunni verður notaður til að ljúka greiðslu á nýju, stafrænu röntgentækjunum og öðrum búnaði til brjóstakrabbameinsleitar sem  mun gera okkur kleift að bjarga enn fleiri mannslífum,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Kostnaður við nýja búnaðinn, tæki, forrit, uppsetningu og þjálfun starfsfólks nemur alls ríflega 600 milljónum króna. Þegar hefur safnast nokkuð upp í kaupin og vonast Guðrún til að salan á bleiku slaufunni dugi til að brúa það sem upp á vantar.

„Með nýju tækjunum er hægt að framkvæma mun nákvæmari greiningu en áður og þau auðvelda leit í þéttum brjóstvef og brjóstum yngri kvenna. Það verður því auðveldara að greina krabbamein á frumstigi en áður,“ segir Guðrún. „Árangur okkar í baráttunni gegn brjóstakrabbameini er einn sá besti í heimi. Við erum stolt af þeim árangri og viljum gera enn betur. Í dag eru 90% kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein á Íslandi enn á lífi 5 árum eftir greiningu. Ein af hverjum tíu konum greinist með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni og því er til mikils að vinna, en við gerum ráð fyrir að allar konur á aldrinum 40-69 ára komi til okkar í myndatöku á tveggja ára fresti.“

Bleika slaufan kostar 1.000 krónur og var Dorrit Moussaieff, forsetafrú, afhent fyrsta eintakið í dag.