*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 8. júní 2019 19:01

Vonast til að lækna 250 milljónir manns

EpiEndo hyggst gjörbylta meðferð lungnaþembu, sem hrjáir um tíunda hvern fullorðinn einstakling.

Júlíus Þór Halldórsson
Finnur Friðrik Einarsson, rekstrarstjóri EpiEndo, segir EpiEndo einstakt á íslenskum markaði.
Haraldur Guðjónsson

Nýsköpunarfyrirtækið EpiEndo vinnur að þróun lyfs sem gæti gjörbylt meðferð þriðja algengasta sjúkdóms í heimi, lungnaþembu. Yfir 250 milljón manns þjást af sjúkdómnum í dag, og þar af eru um 22 milljónir í Evrópu og Bandaríkjunum í meðferð við honum, en þau úrræði sem í boði eru í dag hafa afar takmörkuð áhrif. „Það er í raun engin meðferð til sem hjálpar þessum sjúklingum. Það bíður þín sama framvinda í dag og 1950," segir Finnur Friðrik Einarsson, rekstrarstjóri EpiEndo.

Bólgueyðandi áhrif sýklalyfs

Fyrirtækið var stofnað í byrjun árs 2014, en grunnhugmyndin er þónokkrum árum eldri. „Ef þú gefur sjúklingum með lungnaþembu sýklalyfið azithromycin, þá batnar honum þótt hann sé ekki með sýkingu. Þetta er virkni sem hefur verið þekkt lengi hjá skyldum sýklalyfjum. Lyfjageirinn hefur lengi reynt að komast að því hvað er að gerast, en hefur gengið illa að einangra bólgueyðandi áhrifin."

Friðrik Rúnar Garðarsson læknir fékk hugmyndina að lyfinu þegar hann vann hjá barnaspítalanum og sá áhrif azithromycin á öndunarvegssjúkdóma. Það eru hins vegar miklar takmarkanir á notkun þess eins og annarra sýklalyfja, vegna hættu á að til verði sýklalyfjaónæmar bakteríur.

Friðrik taldi áhrif lyfjana vera beint á sjálfa slímhúðina innan á lugnunum, en ekki bólgueyðandi eins og virknin hafði verið skilgreind þegar hún kom fyrst fram. Með aðstoð sænska efnasmíðafærðingsins Fredrik Lehmann - sem í dag er framkvæmdastjóri EpiEndo - tókst að fjarlægja sýkladrepandi áhrif lyfsins og fá stekrt alþjóðlegt einkaleyfi fyrir nýjum hópi lyfja sem kölluð eru þekjueflandi.

Friðrik byggir hugmynd sína á rannsóknum Ólafs Baldurssonar og og Þórarins Guðjónssonar á azithromycin á árunum 2005 til 2009, á meðan hann var enn í læknanámi.

Metið á vel yfir milljarð

Í dag hefur EpiEndo fengið um 3,4 milljónir evra - eða tæpar 500 milljónir króna - í fjármögnun, og heildarverðmæti þess hefur verið metið á tæpar 1.400 milljónir króna. „Hingað til höfum við fjármagnað okkur með aðkomu íslenskra fjárfesta og sjóða, sem hafa haft trú á þessu, fundist verkefnið spennandi, og viljað taka þátt og fylgjast með því. Það eru ekki mörg svona tækifæri á íslenskum markaði," en félagið hefur auk þess fengið styrki frá Rannís.

Finnur segir markmið fyrirtækisins, þegar búið er að sýna fram á öryggi lyfsins, vera að það verði notað á fyrirbyggjandi hátt.

Fyrir liggur að regluleg inntaka lyfsins fyrirbyggir það að viðkomandi þrói með sér lungnaþembu. Það sem liggur ekki fyrir er hvort lyfið muni beinlínis lækna sjúkdóminn hjá þeim sem þegar eru komnir með hann eða einungis halda honum í skefjum. „Við vitum í raun ekki hversu mikið sjúkdómurinn mun ganga til baka."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: EpiEndo
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is