Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, kveðst bjartsýnn fyrir nýju ári og þeim næstu sem á eftir fylgja í Kauphöllinni. „Það er aldrei alveg öruggt að félög skrái sig á markað fyrr en búið er að hringja bjöllunni en á þeim tveimur áratugum sem ég hef starfað í Kauphöllinni hafa aldrei jafn mörg félög verið í skráningarstellingum og eru nú. Það byggi ég ekki aðeins á fjölda þeirra fyrirtækja sem við höfum átt í samtali við, heldur eru mörg þeirra þegar komin með ráðgjafa og farin af stað í skráningarferlið."

Það yrðu því vonbrigði ef skráningar þessa árs yrðu ekki fleiri heldur en á því síðasta. „Ég á þó síður von á sama stökki milli ára hvað virkni markaðarins varðar en á von á að markaðurinn haldi áfram að vaxa og dafna."

Þegar litið sé til næstu tveggja til þriggja ára vonast Magnús til að það megi nýta Kauphöllina með virkari hætti en gert hefur verið hingað til, til að ná þeim loftslagsmarkmiðum sem þjóðin hefur sett sér. „Ég vonast til að græni geirinn leiti enn meira til Kauphallarinnar og hann muni uppgötva þau tækifæri sem leynast hjá okkur. Við erum þegar með Klappir á First North og fyrirtækin verða varla mikið grænni en það. En ég vonast til að við sjáum einhverja græna skráningu á þessu ári. Það má heldur ekki gleyma því að við erum með ört vaxandi grænan skuldabréfamarkað og voru sex slík bréf skráð hjá okkur í fyrra," segir Magnús en þar með eru sjálfbær skuldabréf í Kauphöllinni orðin sextán talsins.

Nánar er rætt við Magnús í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .