Hlutabréf héldu áfram að hækka á flestum stöðum í Asíu í dag en að sögn Bloomberg binda fjárfestar vonir til þess að Japan lækki stýrivexti sína enn frekar auk þess sem rætt er um að kínverska ríkið grípi inn í með einhvers konar björgunaraðgerðir til að styðja við fjármálakerfið.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði í dag um 3,7% eftir að hafa hækkað um 3,4% í gær.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 7,7%, í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 2,9% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1,3%.

Kospi vísitalan í Suður Kóreu átti skrautlegan dag en hún lækkaði um allt að 7% eftir að Herald Business birti frétt þess efnis í dag að landið hefði beðið um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Stjórnvöld vísuðu fréttinni á bug og eftir það hækkaði vísitalan en hafði þó lækkað um 3% við lok markaða.

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,7% og í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 2,3%.