Samkvæmt Glassdoor.com hafa vörubílstjórar í Bandaríkjunum hækkað mest í launum á milli ára. Ef bornar eru saman 60 algengar starfsgreinar, hafa laun þeirra hækkað um nær 7,8% milli ára. Aðrar greinar hafa aftur á móti að meðaltali séð 2,8% launahækkanir.

Andrew Chamberlain, yfirhagfræðingur Glassdoor, sagði í nýlegu viðtali við CNN Money vörubílstjóra vera á fremstu víglínu í núverandi uppsveiflu.

Þó svo að laun ráðist af vegalengdum og fyrirtækjum, eru flestir vörubílstjórar með upp í 54.000 dali í árslaun. Um er að ræða rétt rúmar 6 milljónir íslenskra króna. Bandarísku vörubílasamtökin segja bílstjóra þó geta verið með allt að 73.000 dali í árslaun.

Mikill skortur er á bílstjórum í Bandaríkjunum, en samtökin spá því að skorturinn nemi allt að 50.000 bílstjórum. Þessi mikli skortur á bílstjórum er einnig að gera vinnuveitendum erfitt fyrir, sem keppast nú um að halda mönnum í vinnu. Stærri fyrirtæki hafa náð að krækja sér í bílstjóra með því að bjóða hærri laun.