Alcoa Fjarðaál hefur samið við Samskip um að annast flutninga á framleiðslu fyrirtækisins til Evrópu næstu fimm árin. Meginhluti framleiðslu Alcoa Fjarðaáls fer á Evrópumarkað. Flutningarnir munu stórauka umsvif Samskipa á Íslandi.

Það voru Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, og Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, sem undirrituðu samninginn í dag í upplýsingamiðstöð Alcoa Fjarðaáls og Fjarðabyggðar við Sómastaði í Reyðarfirði.

Árleg framleiðslugeta Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði er áætluð um 346 þúsund tonn og verður meginhluti framleiðslunnar sendur á Evrópumarkað. Umsvif Samskipa á Íslandi munu því stóraukast með samningnum. Heildarvöruútflutningur frá Íslandi eykst um tæpan fjórðung í tonnum talið með tilkomu Fjarðaáls, ef miðað er við vöruútflutning í fyrra.

?Þetta er mikilvægur og hagstæður samningur fyrir Alcoa Fjarðaál. Með honum verða Samskip tengiliður við viðskiptavini okkar í Evrópu. Ég reikna með því að þessir flutningar muni einnig koma öllu Norðausturlandi til góða og að þeir muni breyta flutningamynstri á landinu öllu,? sagði Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls við undirritun samningsins.

?Við hjá Samskipum væntum mikils af þessu samstarfi við Alcoa Fjarðaál. Við höfum annast gríðarlega mikla flutninga fyrir stóriðjuframkvæmdirnar hér eystra og höfum í tengslum við þá flutninga eflt siglingakerfi okkar til muna. Við erum núna með vikulegar siglingar til Reyðarfjarðar en það er ljóst að þessi samningur við Alcoa Fjarðaál mun leiða til stækkunar á skipaflota okkar og jafnframt aukinnar almennrar flutningsgetu þegar flutningarnir verða komnir á fullan skrið,? sagði Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa.

Alcoa Fjarðaál mun jöfnum höndum framleiða hreint ál, ýmiskonar álblöndur fyrir margvíslega iðnaðarframleiðslu og álvíra sem notaðir eru í háspennustrengi. Reikna má með að útflutningsverðmæti framleiðslu Fjarðaáls muni nema um 50-60 milljörðum króna á ári, miðað við álverð og gengi gjaldmiðla eins og það er nú.

Stefnt er að enn frekari uppbyggingu Samskipa eystra í kjölfar samningsins en félagið hefur þegar fengið úthlutað lóð á athafnasvæði Mjóeyrarhafnar.

Ekki verður greint frá einstökum efnisatriðum samningsins.