Minni afgangur varð af vöruskiptum Kínverja en sérfræðingar höfðu búist við í maímánuði. Alls varð 13,1 milljarðs dollara afgangur af vöruskiptunum en greinendur höfðu spáð 18,6 milljarðs dollara afgangi. Spáskekkjan skýrist öðru fremur af því að innflutningur jókst um 28,4% auk þess sem eftirspurn eftir kínverskum útflutningsvörum hefur ekki tekið við sér eins og reiknað var með.

Þetta er að sögn BBC talið vera til marks um að efnahagsbati í heimshagkerfinu sé ekki jafn öflugur og áður hafði verið gert ráð fyrir í kjölfar þeirrar efnahagslægðar sem ríkt hefur. Enn fremur er búist við því að vöruskiptaafgangurinn muni dragast enn frekar saman í næsta mánuði.