*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 31. júlí 2020 10:50

Vöruviðskiptajöfnuður neikvæður

Fluttar voru út vörur fyrir 46,5 milljarða króna í júní 2020.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fluttar voru út vörur fyrir 46,5 milljarða króna í júní 2020 og inn fyrir 59,4 milljarða króna fob (63,7 milljarða króna cif). Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar.

Vöruviðskiptin í júní, reiknuð á fob verðmæti, voru því óhagstæð um 12,9 milljarða króna. Til samanburðar voru vöruviðskiptin óhagstæð um tæpa 29 milljarða króna í júní 2019 á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruviðskiptajöfnuðurinn í júní 2020 var því 16,1 milljarði króna hagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Viðskipti með skip og flugvélar höfðu óveruleg áhrif á vöruviðskiptajöfnuðinn í júní 2020, en vöruskiptajöfnuður án skipa og flugvéla var óhagstæður um 22,9 milljarða króna í júní 2019.

Verðmæti útflutnings dregst saman

Verðmæti vöruútflutnings var 37,4 milljörðum króna lægra á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 en á sama tímabili fyrir ári síðan, eða 11,2% á gengi hvors árs fyrir sig1. Munar þar mestu um viðskipti með skip og flugvélar í janúar 2019. Iðnaðarvörur voru 49% alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 8,3% lægra en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 43% alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra var einungis 0,7% lægra en á sama tíma í fyrra.

Verðmæti vöruinnflutnings 53,6 milljörðum lægra

Verðmæti vöruinnflutnings var 53,6 milljörðum króna lægra á fyrstu sex mánuðum ársins 2020 en á sama tímabili fyrir ári, eða 14,1% á gengi hvors árs fyrir sig. Innflutningur dróst saman í öllum flokkum nema neysluvörum.