Fjöldi áskrifenda Netflix óx um 10,1 milljón á öðrum ársfjórðungi, sem er umfram væntingar fjárfesta. Áskrifendafjöldi streymisveitunnar hefur því aukist um 26 milljónir á árinu, sem er einungis tveimur milljónum minna en fyrir allt síðasta ár. Skynews segir frá .

Fyrirtækið varaði þó við því að vöxtur nýrra áskrifenda væri byrjaður að fjara út og áætlar að áskrifendafjöldi muni einungis hækka um 2,5 milljónir á þriðja ársfjórðungi, þ.e. frá júlí til september. Hlutabréf Netflix lækkuðu um 10% í viðskiptum eftir lokun markaða.

„Líkt og við gerðum ráð fyrir, þá hægðist á vexti þar sem neytendur komust í gegnum upphafsskell Covid og samkomutakmarkana,“ segir í bréfi félagsins til hluthafa. Einnig kom fram að takmarkanir á félagslegum þáttum hafi ýtt undir áskriftir. Fyrirtækið varaði þó við aukinni óvissu yfir kvikmyndatökum í Bandaríkjunum vegna fjölda smita.

Hagnaður streymisveitunnar nam 720 milljónum dollara, eða um 101 milljarð íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi sem er nær þreföldun frá sama tímabili í fyrra.