Hlutabréf danska orkufyrirtækisins Greentech Energy System, sem á og rekur vindmyllur víða í Evrópu, hafa hækkað mikið að undanförnu segir í Hálffimm fréttum KB banka. Markaður fyrir vindmyllur og vindorku hefur vaxið hratt undanfarin ár og svo virðist sem vöxturinn muni halda áfram á næstu árum. Danska ráðgjafafyrirtækið BTM Consult áætlar að eftir 20 ár verði vindorkumarkaðurinn í heiminum tuttugu sinnum stærri en hann er nú og hafi þá getu til þess að framleiða yfir milljón megawött.

Greentech er skráð í dönsku kauphöllina, en stærsti hluthafi þess er danski milljarðamæringurinn Erik Damgaard. Hann efnaðist árið 2002 þegar hann seldi fyrirtækið Navision, sem hann átti ásamt bróður sínum og fleirum, til Microsoft fyrir hátt í 120 ma. kr. Hann hefur að nokkru leyti snúið baki við hugbúnaðargeiranum og einbeitir sér nú að fjárfestingum í vistvænni raforku.

Hálffimm fréttir benda á að auk þess að eiga 7,5% hlut í Greentech er Damgaard stjórnarformaður fyrirtækisins Eurotrust og á þar 16% hlut. Félagið er skráð á Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum og var, þar til í þessari viku, fjölmiðla- og netfyrirtæki. Hins vegar fjárfesti Eurotrust nýlega, að frumkvæði Damgaard, í Aktiv Gruppen sem rekur vindmyllur í Þýskalandi og víðar. Damgaard hefur í hyggju enn frekari fjárfestingar í þessum geira, sem hann býst við að vaxi enn frekar.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.