Stjórn VR samþykkti á fundi sínum nýlega áskorun til þeirra lífeyrissjóða sem félagsmenn VR greiða til að beita vægustu innheimtuaðgerðum sem kostur er og að óska ekki eftir nauðungarsölu á íbúðum nema fullreynt sé að ekki sé unnt að leysa greiðsluerfiðleika viðkomandi.

Stjórnin óskar eftir samstarfi við lífeyrissjóðina um útfærslu úrræðna og starfsreglna.

Þetta kemur fram á vef VR en ályktun stjórnarinnar er svohljóðandi:

„Með hliðsjón af þeirri efnahagskreppu sem riðið hefur yfir þjóðina beinir stjórn VR  þeim eindregnu tilmælum til stjórna þeirra lífeyrissjóða sem félagsmenn VR greiða til að beita vægustu innheimtuúrræðum sem kostur er  á meðan heimili landsins glíma við yfirstandandi fjárhagserfiðleika, atvinnuleysi, landflótta og aðra erfiðleika.

Enn fremur að stjórnir lífeyrissjóðanna setja sér starfsreglur þar að lútandi. Flestir félagsmenn VR greiða til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, fjölmargir greiða einnig til Stafa lífeyrissjóðs (áður Samvinnulífeyrissjóðsins), Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja og Stapa lífeyrissjóðs (áður Lífeyrissjóðs Austurlands)."

Sjá nánar á vef VR.