VR hefur stefnt íslenska ríkinu. Ástæðan er sú að lögum um atvinnuleysistryggingar hefur verið breytt á þann veg að tímabil atvinnuleysisbóta hefur verið stytt úr þremur árum í tvö og hálft ár. Samkvæmt tilkynningu frá VR var stefnan lögð fram þann 2. janúar síðastliðinn í héraðsdómi Reykjavíkur og hefur VR óskað eftir flýtimeðferð.

„Skerðing á bótarétti atvinnuleysistrygginga, með nær engum fyrirvara, kippir fótunum undan fjölda félagsmanna VR. Okkar hlutverk er að verja réttindi félagsmanna og gæta hagsmuna þeirra. Ábyrgð okkar er skýr, við sáum engan annan kost í stöðunni en höfða mál til að fá þessari ákvörðun hnekkt,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR og varaforseti ASÍ í tilkynningu.

Segja meginreglur stjórnskipunar brotnar

Í tilkynningu kemur fram að með því að breyta lögum og stytta tímabil atvinnuleysisbóta sé brotið á réttaröryggi og fyrirsjáanleika, sem VR segir vera meginreglur í stjórnskipun. Jafnframt feli lagabreytingin í sér ólögmæta og afturvirka skerðingu á eignarrétti bótaþega, auk þess að vera ómálefnaleg og fram úr hófi íþyngjandi. „Eignaréttur þeirra sem þegar fá atvinnuleysisbætur hafi verið skertur með afturvirkum og ólögmætum hætti og gengið hafi verið gegn réttaröryggi þeirra," segir í tilkynningu.

Þá telur VR einnig að breytingin sé ólögmæt og gangi gegn 76. gr. stjórnarskrár sem kveði á um rétt manna til aðstoðar, meðal annars vegna atvinnuleysis.

Ekki málefnalegt að ætla að lækka útgjöld ríkissjóðs

Ein af málsástæðum VR í málinu er sú að ómálefnalegt sé að stytta tímabil atvinnuleysisbóta ef markmiðið er að lækka útgjöld ríkissjóðs. „Þær ástæður réttlæta ekki að mati VR svo íþyngjandi og afturvirkar skerðingar sem hér um ræðir. Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður með atvinnutryggingagjaldi. Ekkert liggur fyrir um að tryggingagjald hafi hætt að duga fyrir rekstri sjóðsins og bendir raunar allt til hins gagnstæða. Stjórnvöld hafa ekki sýnt fram á nein tengsl milli skerðingarinnar og málefnalegra ástæðna þannig að réttlæta megi skerðingu þeirra hagsmuna sem sjóðnum er ætlað að tryggja," segir í tilkynningu. Aðrar ástæður en sparnaður hjá ríkissjóði þurfi að koma til svo heimilt sé að stytta bótatímabil.

Jafnframt er því haldið fram að breytingin feli í sér afturvirka, íþyngjandi lagasetningu sem leiði af sér mismunun sem bitni helst á tilteknum hópi í þjóðfélaginu.