Niclas Walter hefur verið ráðinn nýr forstjóri Mentor.  Hann tekur við starfinu af Kristínu Pétursdóttur sem hefur leitt félagið frá byrjun árs 2016 en lætur nú af störfum að eigin ósk. Niclas Walter hefur starfað hjá Mentor frá 2016 og verið yfirmaður dótturfélaga þess í Svíþjóð, Þýskalandi og Sviss en þessir markaðir afla um 75% tekna félagsins.

Wallter hefur starfað sem stjórnandi á alþjóðlegum hugbúnaðarmarkaði í þrjátíu ár.  Hann hefur MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði ásamt MBA gráðu frá IMD Lausanne í Sviss. Niclas Walter segir að Mentor einsetji sér að vaxa af krafti. „Ég hef í gegnum störf mín kynnst vel starfsfólki félagsins sem starfar í fimm löndum og veit því hvaða þekkingu og getu það hefur, segir Walter.

„Ég kem til með að byggja á þeim styrk og veit að hann er umtalsverður.  Stjórnendateymi félagsins er sterkt og vinnur vel saman og getum við því einbeitt okkur strax að því verkefni að ná fram vexti.”

Kristín Pétursdóttir segir fyrirtækið nú vera vel í stakk búið til að taka áframhaldandi skref í átt að frekari vexti. „Verkefni mitt hjá Mentor fólst í ákveðinni endurskipulagningu og styrkingu á starfseminni og hafa miklar breytingar verið gerðar bæði stefnu og skipulagi félagsins auk þess sem stjórnendateymið hefur verið styrkt verulega,“ segir Kristín.

„Ég tel að á   þessum tímapunkti sé rétt fyrir mig að snúa mér að nýjum verkefnum. Tíminn hjá Mentor hefur verið frábær og ég óska félaginu alls hins besta í framtíðinni.” Stjórn þakkar Kristínu vel unnin störf og býður um leið Niclas Walter velkominn til starfa að því er segir í fréttatilkynningu.