Bandaríski milljarðamæringurinn Warren Buffett segir ekki víst hvort ráðamenn ESB-ríkjanna nái eða hafi það sem þarf til að vinna bug á skuldavandanum. Hann er engu að síður fullviss um að hvernig sem fer þá muni þjóðarleiðtogar ESB-ríkjanna hafa betur í baráttunni gegn skuldakreppunni.

Buffett var í viðtali um skuldakreppuna í sjónvarpsþættinum Squawk Box á viðskiptafréttastöðinni CNBC í morgun. Þar sagðist milljarðamæringurinn, sem um árabil hefur verið á meðal efnustu manna í heimi, hvorki eiga hlutabréf í bönkum á evrusvæðinu né sjá kauptækifæri þar í augnablikinu. Ástæðan sé ekki beint viðvarandi skortur á trausti á evrusvæðinu nú um stundir heldur þurfi hann að kynna sér efnahag bankanna betur.

Þá sagði Buffett að Evrópa muni ná að vinna bug á skuldakreppunni og verði hagkerfi Evrópuríkjanna sterkara eftir áratug.

Spurður um álit sitt á frambjóðendakapphlaupi Repúblikana sagðist Buffett telja Mitt Romney líklegastan til að fara gegn Barack Obama í forsetakosningunum á næsta ári. Rick Perry er sísta frambjóðendaefni flokksins í kosningunum, að mati Buffets. Hann vill ekki sjá hann fara fram og vísaði til þess að fleira komi til en léleg frammistaða Perrys í síðustu kappræðum.