Fjarskiptafélagið WOM í Kólumbíu hefur sótt um greiðsluskjól þar í landi, einungis tveimur vikum eftir að systurfélag þess í Chile sóttu um greiðsluskjól í Bandaríkjunum, sem Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um fyrr í mánuðinum.

Í yfirlýsingu WOM til fjölmiðla í Kólumbíu kemur fram að þessi ráðstöfun raski ekki rekstri félagsins og að það geti áfram þjónustað viðskiptavini sína sem eru um 6,4 milljónir talsins.

Forstjóri WOM í Kólumbíu segir að aðaleigandi fjarskiptafélagsins, Björgólfur Thor Björgólfsson í gegnum fjárfestingarfélag sitt Novator, vinni nú í endurfjármögnun með Deutsche Bank.

Í yfirlýsingunni bendir félagið einnig á að það hafi fjárfest fyrir 1,2 milljarða dala eða um 170 milljarða íslenskra króna á kólumbíska fjarskiptamarkaðnum.

Novator kom WOM á laggirnar í Chile árið 2015 eftir að hafa keypt Nextel, fremur smátt fjarskiptafyrirtæki þar í landi með liðlega 1% markaðshlutdeild, og náði að byggja upp 25% markaðshlutdeild á nokkrum nárum.

Árið 2020 hóf Novator innreið sína á kólumbíska fjarskiptamarkaðinn með kaupum á meirihluta í félaginu Avantel. Novator hefur lagt ríka áherslu á að byggja upp rekstur WOM í Kólumbíu, með sambærilegum hætti og það hefur áður gert í Póllandi, Chile og með Nova á Íslandi.

WOM Chile lýsti því yfir á seinni árshelmingi 2023 að félagið hygðist setja frekari fjárfestingar í rekstri WOM Columbia á ís þar til það hefði lokið endurfjármögnun. Þannig var fjárfesting WOM Chile í kólumbíska rekstrinum aðeins um 16 milljónir dala, en áður hafði verið gert ráð fyrir um 100 milljóna dala fjárfestingu.