Tékkneski fjárfestingabankinn Wood & Company, sem er að helmingi í eigu Straums fjárfestingabanka,  jók í síðasta mánuði markaðshlutdeild sína í verðbréfamiðlun í kauphöllum utan Tékklands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Straumi.

Wood hefur aldrei haft jafnháa hlutdeild í kauphöllinni í Varsjá í Póllandi, en hún nam 6,4% í ágúst. Wood var sjöundi stærsti miðlarinn í ágúst, en hins vegar stærstur erlendra miðlara.

Wood var jafnframt fjórði umsvifamesti miðlarinn í kauphöllinni í Búdapest, og félagið átti 8,7% af veltunni.

Wood er stærsti einstaki verðbréfamiðlarinn í kauphöllinni í heimalandi sínu. Fyrirtækið á auk þess aðild að kauphöllunum í Búkarest, Búdapest, Frankfurt, Ljubljana, Sófíu, Vín og Varsjá.