Helstu skuldunautar bresku verslunarkeðjunnar Woolworths, sem er að hluta til í eigu Baugs, funda nú stíft með ráðgjöfum frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte áður en Woolworths leggur fram fjárhagsáætlun sína fyrir næsta ár.

Þetta kemur fram á vef Retail Week.

Þá kemur fram að annað endurskoðunarfyrirtæki, KPMG komi einnig að viðræðunum. Reynt er að semja við kröfuhafa um greiðslur félagsins til að hægt verði að leggja fram „raunhæfa“ fjárhagsáætlun, eins og það er orðað í frétt Retail Week.

Fram kemur á vef Retail Week að Woolworths muni leggja fram fjárhagsáætlun sína milli jóla og nýárs en greiningaraðilar í Bretlandi telja þó að félagið sé illa statt og sjá ekki fyrir sér að félagið geti staðið í eðlilegum rekstri þangað til þá.

Þá kemur fram að margir tryggingaraðilar hafa sagt upp tryggingum sínum við félagið og muni ekki ábyrgjast greiðslur þess til heildsala.

Hlutabréf í Woolworths lækkuðu um 3,7% strax við opnun markaða í morgun.