Í september nýliðnum var sætanýting flugfélagsins Wow air 91% og er það 20% aukning á sætanýtingu miðað við september í fyrra en þá var sætanýtingin 75%. Í tilkynningu frá félaginu flutti Wow air 43.100 farþega í september og hefur flutt 395.313 farþega sem af er árinu. Til samanburðar flutti félagið 38.563 farþega í septembermánuði í fyrra og 329.187 farþega fyrstu níu mánuði ársins 2013. Þegar fyrstu níu mánuðir ársins eru bornir saman við sama tímabil árið 2013 sést að 20% farþegaaukning er á milli ára.

Þá segir í tilkynningunni að þriðji ársfjórðungur 2014 sé sá besti frá upphafi félagsins hvort sem litið sé á heildartekjur, sætanýtingu eða afkomu.

Í vikunni gaf félagið út Evrópu sumaráætlun fyrir árið 2015. WOW air hefur bætt við þremur nýjum áfangastöðum í Evrópu; Dublin, Billund og Róm. Á næsta ári mun félagið fljúga til 17 áfangastaða í Evrópu. Félagið verður með sex flugvélar í flota sínum næsta sumar en var með fjórar flugvélar síðastliðið sumar. Tvær nýjar vélar verða af gerðinni Airbus A321, þrjár vélar að gerðinni Airbus A320 og eina vél að gerðinni Airbus A319.