*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 23. maí 2018 16:54

Wow hefur fyrsta flugið til Texas

Fyrsta flug Wow air til Dallas í Texas ríki í Bandaríkjunum er í dag en um er að ræða 13. áfangastað félagsins í landinu.

Ritstjórn
Dallas er í Texas ríki í Bandaríkjunum en þar er hagvöxtur og fólksfjölgun hvað mest í öllu landinu.
Aðsend mynd

Fyrsta flug WOW air til Fort Worth flugvallar við Dallas borg er í dag. Flogið verður til borgarinnar þrisvar sinnum í viku, á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Flogið verður í Airbus A330 vél og er brottför frá Keflavík kl 17:40. Flugtíminn er átta og hálfur klukkutími en lent er í Dallas klukkan níu að kvöldi.

„Við bjóðum WOW air velkomið til Dallas Fort Worth. Reykjavík er vinsæll áfangastaður auk þess sem koma WOW air opnar nýjar leiðir fyrir íbúa Texas sem vilja ferðast og sjá heiminn,“ segir John Ackerman framkvæmdastjóri þróunarsviðs DFW flugvallar.

Dallas tilheyrir Texas ríki og er þriðja stærsta borg ríkisins á eftir Houston og San Antonio. Dallas er fyrir margra hluta sakir merkilegur staður að heimsækja. Við Dealey Plaza er safn til heiðurs John F. Kennedy, The Sixth Floor Museum, en safnið er staðsett á efstu tveimur hæðum þar sem Lee Harvey Oswald á að hafa hleypt af skotum og ráðið forsetann af dögum.

Þá er Dallas líka mikil íþrótta- og menningarborg en stórliðin Dallas Cowboys, Dallas Mavericks, Texas Rangers og Dallas Stars eiga þar öll bækistöðvar. Að lokum má enginn láta það framhjá sér fara að heimsækja Southfork býlið þar sem Ewing fjölskyldan úr sjónvarpsþáttunum Dallas hafði aðsetur.

Dallas er þrettándi áfangastaður WOW air í Bandaríkjunum en stutt er síðan Cleveland, Detroit, Cincinnati og St. Louis bættust við leiðarkerfi WOW air. Þá hefur WOW air einnig hafið sölu á flugi til Indlands en flug þangað hefst í desember á þessu ári.

Stikkorð: Bandaríkin Dallas Bandaríkin Texas