*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 19. apríl 2018 19:26

WSJ fjallar um gagnaver á Íslandi

Wall Street Journal segir gríðarlega eftirspurn eftir rafmagni frá gagnaverum vera prófstein á umhverfisgildi landsins.

Ritstjórn
Gagnaver Verne Global
Aðsend mynd

The Wall Street Journal gerir uppgang gagnaversiðnaðarins að umfjöllunarefni sinni í nýrri grein á vef miðilsins. Þar segir meðal annars að gríðarleg eftirspurn eftir rafmagni frá gagnaverum sé prófsteinn á náttúruverndargildi landsins. 

Þá segir einnig að veðurfarið og gnægð orku á Íslandi valdi því að landið geti boðið það sem allar tölvurnar sem reka hagkerfi heimsins þurfi, kælingu og rafmagn. Árið 2030 gætu gagnaver og önnur nettengd starfsemi notað meiri orku en Kína gerir á þessu ári. 

Ennfremur segir í umfjöllung WSJ að stjórnvöld á Íslandi vinni nú að því að sporna við fjölgun gagnavera með því að endurskoða regluverkið um virkjanaframkvæmdir. Margir stjórnmálamenn segi að þeir hafi áhyggjur af því að hætta sé á að tæknibyltingin geti spillt náttúrunni.

Í umfjölluninni er rætt við Andra Snæ Magnason, rithöfund og fyrrverandi forsetaframbjóðanda en hann segir að frekari virkjanaframkvæmdir geti verið mjög sársaukafullar. 

Stóra samkeppnisforskot Íslands þegar kemur að gagnaversiðnaði að mati WSJ er að rafmagnið er að öllu leyti framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum. Jafnframt er í því samhengi vísað í gagnaversáhættuvísitöluna sem unnin er af fjárfestingarfélaginu Cushman & Wakefield þar sem Ísland trónir á toppi vísitölunnar yfir bestu löndin fyrir gagnaver. 

Jóhann Snorri Sigurbergsson, upplýsingafulltrúi HS Orku, er einnig tekinn tali í umfjölluninni en hann segir gagnaverin hafa aukið fjölbreytileika í viðskiptavinahópi fyrirtækisins.