Ísland er öfgakennt dæmi um tjón á tímum þegar ótrúlega auðvelt var að fá lánsfé, segir í ýtarlegri umfjöllun WSJ í dag. Og blaðið heldur áfram: „En Ísland var meira en þetta: Skoðun á bankakerfi landsins, sem féll á um tíu dögum nú í haust, sýnir að Ísland var einn af áköfustu leikendunum í alþjóðlegu fjármálabólunni. Á landinu búa færri en í Wichita í Kanada en landið varð svo skuldsett og svo samofið alþjóðlega fjármálakerfinu, að fall Íslands hefur skekið heiminn allt frá Tókýó til Kaliforníu til Mið-Austurlanda.“

WSJ byrjar frásögn sína á að lýsa mótmælum á borð við skyrkast í Alþingishúsið en útskýrir svo hvernig Ísland tengis alþjóðlega fjármálaheiminum. Í Japan og Hong Kong sitji skuldabréfakaupendur uppi með nánast verðlausa pappíra. Í Beverly Hills hafi fasteignaþróunarfélag farið í þrot eftir að hafa ætlað að byggja hús með íslenskum banka. Í Þýskalandi hafi Bayerische Landesbank tapað miklu á fjárfestingum á Íslandi sem eigi sinn þátt í að bankinn hafi þurft 30 milljarða evru aðstoð.

Í fréttinni er hagsaga síðustu ára á Íslandi rakin í stórum dráttum og svo aðdragandinn að falli bankanna og þeir erfiðleikar sem nú er við að etja.

FT einnig með mikla umfjöllun um Ísland

WSJ er ekki eina stóra viðskiptablaðið sem ver drjúgu plássi undir umfjöllun um efnahagslífið hér á landi þessa dagana. Eitt af sex umfjöllunarefnum sem FT dregur sérstaklega fram á vef sínum er íslenska hagkerfið, en vb.is hefur þegar sagt frá hluta þeirrar umfjöllunar.