Xavier Govare hefur verið ráðinn forstjóri Alfesca, en hann hefur verið forstjóri Labeyrie, dótturfélags Alfesca, frá árinu 2002 og þekkir starfsemi félagsins vel, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Undir hans stjórn hefur Labeyrie náð góðum árangri í rekstri og innleiðingu nýrra félaga sem bæst höfðu við félagið á síðustu árum undir hans stjórn, meðal annars Blini í Frakklandi, Vensy á Spáni og Farne í Bretlandi. Var það sameiginleg ákvörðun stjórnar og framkvæmdastjórnar Alfesca að færa stjórn félagsins nær mörkuðum þess, segir Alfesca.

Jakob Óskar Sigurðsson hefur látið af störfum eftir tveggja ára farsælt starf hjá félaginu. Undir hans stjórn hefur félagið vaxið og tekið miklum breytingum. Sú stefna sem mörkuð var fyrir um tveimur árum, að Alfesca yrði leiðandi framleiðandi kældra fullunninna matvæla á Evrópumarkaði, hefur gengið eftir en félagið er nú leiðandi á kjarnamörkuðum sínum í Frakklandi, Bretlandi og á Spáni, segir í tilkynningunni.

Xavier Govare, sem er 48 ára gamall, er með gráðu í viðskiptum. Hann hóf störf hjá Labeyrie árið 1989 en áður hafði hann starfað sem stjórnandi hjá Unilever Best Food, sem er einn stærsti matvælaframleiðandi í heimi, og Novartis. Hann varð framkvæmdastjóri Labeyrie árið 1999 og hafði yfirumsjón með skráningu félagsins á franska hlutabréfamarkaðinn það ár. Xavier varð síðar forstjóri félagsins eftir afskráningu þess af hlutabréfamarkaði árið 2002.

?Stefna Labeyrie group hefur í mörg ár verið að auka virði félagsins með því að leggja áherslu á framleiðslu eigin vörumerkja,? segir Xavier Govare. ?Þannig hefur okkur tekist að ná forystu á mörkuðum okkar og arðsemi aukist samkvæmt því. Eftir þessari stefnu hefur verið unnið hjá Alfesca.?