Tæknifyrirtækið XG Technology, sem er að hluta til í eigu íslenskra fjárfesta, hefur samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gert samning við breska fjarskiptafyrirtækið National Grid um að nýta fjarskiptabúnað frá XG Technology. Samkvæmt heimildum blaðsins er þessi samningur mjög mikilvægur fyrir XG Technology sem með þessu virðist hafa tryggt að nokkrar milljónir manna noti búnað fyrirtækisins. Ætti því samningurinn hafa mjög jákvæð áhrif á útbreiðslu félagsins á breskum og jafnvel evrópskum fjarskiptamarkaði.

Miklar breytingar eiga sér stað hjá National Grid um þessar mundir, en nýtt félag, National Grid Wireless (NGW), verður klofið út úr National Grid-samstæðunni. Fyrirhugað er að skrá NGW á markað í vor en það mun eiga stóran hluta af grunnnetinu í Bretlandi.

XG Technology og National Grid hafa átt í viðræðum um nokkurra mánaða skeið á meðan búnaður XG Technology var tekin út. Sá samningur sem félögin hafa nú undirritað er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að XG Technology útvegi NGW tækni fyrir þráðlaus kerfi þeirra sem er mikil viðurkenning fyrir XG. Viðskiptavinahópur NGW í Bretlandi telur margar milljónir og munu þeir fá aðgang að tækni XG. Um leið er ljóst að þetta mun vekja áhuga annarra fjarskiptafyrirtækja í Evrópu.

Markaðsverðmæti tæknifyrirtækisins XG Technology hefur hækkað mikið frá því félagið var skráð á AIM-markaðinn í Bretlandi í nóvember, en markaðsverðmæti þess við skráningu var 544 milljónir dala, eða rúmlega 38 milljarðar króna.

Íslenska félagið Stormur, sem skráð er í Svíþjóð, á um 20% hlut í XG Technology. Upphafleg fjárfesting Storms var í kringum fimm milljónir dala, en virði hlutarins jókst í kringum 120 milljónir dala við skráninguna á síðasta ári. XG Technology sérhæfir sig í fjarskiptatækni og er staðsett í Flórídafylki í Bandaríkjunum. Búnaður þess hefur vakið athygli en þar virðist vera um að ræða trúverðuga lausn fyrir 4G fjarskiptatækni, kallaða xMax, en tilraunasendingar hefjast í apríl næstkomandi.