Stjórn Yahoo hittist á símafundi í gær og ræddi möguleikann á því að fá Microsoft til að hækka tilboð sitt í fyrirtækið.

Sem kunnugt er gerði Microsoft yfirtökutilboð í Yahoo fyrir rúmri viku og hljómaði tilboð Microsoft upp á 42 milljarða bandaríkjadali. Wall Street Journal greinir frá þessu.

Þá var einnig ræddur sá möguleiki að fá Google til að stjórna leitarsíðu Yahoo í framtíðinni en stjórnarformaður Yahoo, Jerry Yang sagði við fjölmiðla það væri ekki hans fyrsta val.

Talsmaður Yahoo sagði að stjórn fyrirtækisins væri enn að íhuga tilboð Microsoft en vildi ekki tjá sig nánar um gang mála.

Þá greinir Reuters frá því að hugsanlega kunni Microsoft að hækka tilboð sitt en þar á bæ virðist vera mikill vilji til að eignast leitarvélina.