Stjórn Yahoo hefur samþykkt að ganga til kaupa á blogg fyrirtækinu Tumblr. Þetta kemur fram á vef Wall Street Journal. Búist er við að tilkynnt verði um kaupin á mánudag. Talsmenn Yahoo og Tumblr hafa ekki svarað fyrirspurnum Wall Street Journal um málið.

Í fréttinni kemur fram að Yahoo hefur samþykkt að greiða 1,1 milljarð dollara fyrir fyrirtækið, sem samsvarar um 135 milljörðum íslenskra króna. Tumblr mun halda áfram að starfa sem sérstakt fyrirtæki. Tumblr var stofnað árið 2007 og er hannað til að gera það auðvelt fyrir fólk að útbúa bloggsíður og deila myndum á vefnum. Fyrirtækið hefur þó ekki náð að skapa stóran tekjugrundvöll enn sem komið er.