Hlutur Samherja og Kjálkaness í Síldarvinnslunni (SVN) er meira en 30 milljörðum verðmætari en hann var skráður í bókum félaganna í nýjustu ársreikningum þeirra þar sem hluturinn er verðmetinn út frá bókfærðu eigið fé Síldarvinnslunnar.

Markaðsvirði Síldarvinnslunnar verður um 98 milljarða króna sem er nærri tvöfalt hærra en bókfært eigið fé félagsins. Félagið verður skráð á markað í lok maí en tvöföld umframeftirspurn var í nýafstöðnu hlutafjárútboði félagsins.

Samherji seldi 12% hlut í hlutafjárútboðinu á um 11,8 milljarða króna en hluturinn var bókfærður á um 6 milljarða króna sé miðað við eigið fé Síldarvinnslunnar um áramótin sem skapar söluhagnað upp á tæpa 6 milljarða króna. Þá seldi Kjálkanes 15% hlut á tæpa 15 milljarða krónasem bókfærður var á um 7,5 milljarða króna um áramótin og því var söluhagnaðurinn meira en 7 milljarðar króna. Samtals má því búast við að bókfærður söluhagnaður félaganna nemi um 12 milljörðum króna.

45% eignarhlutur Samherja í Síldarvinnslunni var bókfærður á um 24 milljarða króna fyrir útboðið en 45% hlutur í félaginu er um 44 milljarða króna virði miðað við niðurstöðu útboðsins. Þá var 34,55% hlutur Kjálkaness bókfærður á um 18 milljarða króna um áramótin en er um 34 milljarða króna virði miðað við útboðsgengi félagsins.

Eftir útboðið mun Samherji eiga 33% hlut í Síldarvinnslunni og Kjálkanes ríflega 19% hlut. Samherji og Kjálkanes verða því áfram samanlagt með meirihluta í Síldarvinnslunni. Kjálkanes er í eigu sömu aðila og eiga útgerðina Gjögur á Grenivík, en meðal hluthafa þar er Björgólfur Jóhannsson, sem nýlega lét af störfum sem forstjóri Samherja. Samkeppniseftirlitið hefur haft til skoðunar hvort félögin hafi með samstarfi og eignartengslum raunveruleg yfirráð yfir Síldarvinnslunni .